top of page

veislan

Fermingarveislan er mikilvægur hluti dagsins og gott skipulag skapar ró fyrir alla. Áður en farið er í einstaka þætti veislunnar getur verið gagnlegt að líta yfir tékklistann fyrir fermingarveislur, velja þau atriði sem eiga við og nota hann sem leiðarvísi í skipulaginu.

Fermingarveislan er oft sá hluti dagsins þar sem fjölskyldan og gestir fá tíma til að njóta samverunnar. Hvort sem veislan er haldin heima, í sal eða á veitingastað, skiptir skipulagið miklu máli fyrir stemningu og flæði dagsins. Góð fermingarveisla þarf ekki að vera flókin. Hún þarf fyrst og fremst að vera vel skipulögð, í takt við fermingarbarnið og aðstæður fjölskyldunnar. Með skýrum ramma verður veislan notaleg, afslöppuð og eftirminnileg fyrir alla gesti. 

Veitingar

Veitingar eru stór hluti fermingarveislunnar og oft eitt af því sem gestir muna best eftir. Algengt er að bjóða upp á fjölbreyttar veitingar sem henta öllum aldurshópum. Algengar útfærslur eru: hlaðborð með heitum og köldum réttum, léttar veitingar og snarl og að lokum tertur, kökur og eftirréttir. 

Við val á veitingum er mikilvægt að hafa í huga fjölda gesta og hvort veitingar þurfi að vera auðveldar í framsetningu og þjónustu.

Skreytingar og framsetning

Skreytingar þurfa ekki að vera flóknar eða kostnaðarsamar til að hafa áhrif. Oft skiptir mestu máli að halda sig við einfalt þema og samræmda framsetningu.

Algengt er að velja eitt eða tvö litatema, leggja áherslu á borðskreytingar, nota einfaldar skreytingar sem má endurnýta eða laga að rýminu. Persónuleg snerting, til dæmis í formi nafna, dagsetninga eða táknrænnar framsetningar, getur gert fermingarveisluna einstakari og meira í takt við fermingarbarnið.

Þó svo að skreytingar þurfi ekki að vera flóknar, þá mega þær svo sannarlega vera það. Gaman er að koma í veislur þar sem fyrsta upplifunin er:  „Vá! Mikið er þetta flott.“ Í því samhengi gerir blöðrubogi, photobooth og heildarútlit gæfumuninn.

Dagskrá og flæði veislunnar

Góð og hnittin dagskrá er lykilatriði til að geta horft til baka á daginn með gleði. Að setja saman dagskrá er samt afar þunn lína að dansa á því dagskráin má ekki vera of þétt og yfirþyrmandi en ekki of slök að fólki fari að leiðast. Stemningin í fermingarveislum er oft frekar stirð. Þótt fermingarveisla sé oft óformleg er gott að hafa grófa dagskrá í huga og eitthvað sem brýtur ísinn snemma. Skýrt flæði hjálpar bæði líka þeim sem standa fyrir veislunni.

Yfirleitt hefjast veislur á stuttri lofræðu foreldra, fermingarbarnið fær svo að láta ljós sitt skína og muldrar „takk fyrir komuna og gjörið svo vel.“ Það er hins vegar ótrúlega gaman að heyra meira frá fermingarbarninu. Setjist niður með því, skrifið saman stutta ræðu og gefið barninu nægan tíma til að æfa sig.

Dagskráin gæti litið sirka svona út:

Móttaka gesta,

ræða foreldra og fermingarbarns,

veitingar,

skemmtiatriði og leikir,

kaffi.

Dagskráin þarf ekki að vera stíf eða nákvæm, heldur leiðbeinandi rammi sem tryggir að veislan gangi snurðulaust fyrir sig.

Skemmtun í fermingarveislu

Skemmtun er valkvæð en getur verið góð viðbót við veisluna, sérstaklega fyrir stærri hópa. Létt og fjölskylduvæn skemmtun getur brotið upp dagskrána og sameinað gesti á ólíkum aldri. Einar Aron töframaður hefur áratuga reynslu af töfrasýningum í fermingarveislum. Þá geta skemmtilegir leikir einnig sett svip sinn á veisluna.

Að lokum

Fermingarveislan er fyrst og fremst samvera. Með góðu skipulagi, skýrum ákvörðunum og einföldum lausnum verður auðveldara að skapa notalega stemningu þar sem fermingarbarnið og gestir fá að njóta dagsins.

Markmiðið er ekki að gera allt fullkomið, heldur að gera veisluna hlýja, persónulega og eftirminnilega.

leikir og afþreying

Leikir

Leikir í fermingarveislum geta verið mikilvægir til að létta stemninguna. Leikirnir geta verið fjölbreyttir, bæði í gangi alla veisluna eða leikur sem fer fram á sviðinu. Hér að neðan eru tillögur um nokkra leiki sem hægt er að fara í og auðvelt er að undirbúa.

 

Hver þekkir fermingarbarnið best?

Allir sitja á sínum stað og taka þátt á sama tíma, sem gerir leikinn einfaldan í framkvæmd og án þess að nokkur þurfi að koma fram eða fara á svið. Spyrill les upp fullyrðingar eða spurningar um fermingarbarnið og gestir svara með einföldum hætti, til dæmis með því að rétta upp hönd eða nota spjöld til að svara já eða nei.

Spurningarnar geta verið léttar og persónulegar, án þess að vera vandræðalegar, til dæmis hvort fermingarbarninu líði best í rólegu kvöldi heima, hvort það myndi frekar velja ferðalag eða nýjan síma, eða hvort það sé meiri morgun- eða kvöldmanneskja. Leikurinn skapar oft mikinn hlátur og sameiginlega upplifun, þar sem gestir á öllum aldri geta tekið þátt á sínum forsendum.


Lukkuhjól

Búðu til eða kauptu lukkuhjól. Skreyttu það og merktu með áskorunum fyrir gestina eða verðlaunum sem þau geta unnið.
 

Besta Photo Booth myndin

Hvetjið gestina til að taka skemmtilegar myndir, grettur, fíflagang eða hvað annað. Bara ekki þessar týpísku uppstilltri myndir. Fermingarbarnið getur valið sína uppáhalds mynd áður en dagurinn er úti.
 

Fáðu nei

Allir gestir byrja með þrjár gúmmíteygjur og markmið leiksins er að safna sem flestum teygjum. Þegar þú stendur einhvern að því að segja „nei" verður sá sem það sagði að afhenda eina teygju.
Jafnvel þó svo að teygjurnar klárist er sá ekki úr leik heldur getur haldið áfram að spila.
Hægt er að spila þetta alla veisluna eða í afmarkaðan tíma. Þetta er tilvalinn leikur til að fá fólk til að spjalla. Sá vinnur sem hefur flestar teygjur í lok veislunnar.
 

Foreldrar vs. fermingarbarnið

Fermingarbarninu er stillt upp með einum eða tveimur foreldrum og spyrill les upp spurningar sem snúa að hversdagslegum venjum og persónueinkennum. Þátttakendur svara með einföldum hætti, til dæmis með spjöldum eða handarmerkjum, sem gerir leikinn aðgengilegan og lausan við pressu.

Spurningarnar eiga að vera léttar og fyndnar, án þess að setja neinn í óþægilega stöðu. Dæmi um slíkar spurningar eru hver sé lengur í sturtu, hver sofi lengur, hver gleymi oftast símanum sínum eða hver sé skipulagðastur. Leikurinn skapar oft mikla kátínu og hlátur, enda fá gestir að sjá foreldra og fermingarbarnið keppast um hefðbundna hluti.

bottom of page